Sá er borðar fisk og kjöt hann frændur sína étur

Láttu kjurt

mánudagur, nóvember 01, 2004

Ég sá þetta á síðunni hans Dags og hann sá þetta hjá einhverjum vini sínum, ég er þeim hjartanlega sammála og hér kemur hvað á þeirri síðu stóð:

Um daginn fóru íslenskir friðargæsluliðar að kaupa teppi á troðinni götu í Kabúl og dvöldu þar heillengi þrátt fyrir að viðvaranir hefðu verið gefnar út til herklæddra manna um að forðast þessa ákveðnu götu eins og heitan eldinn vegna hættu á árásum. Hégómagirni, hroki og bjánaskapur urðu skynseminni yfirsterkari með þeim afleiðingum að 11 ára afgönsk stúlka og ung bandarísk kona drápust í sprengjuárás sem gerð var á herklædda túristana meðan þeir biðu eftir yfirmanni sínum fyrir utan teppabúð.

Mbl.is segir í frétt um heimkomu þeirra (29. okt. 2004):

"Þremenningarnir voru íklæddir bolum þar sem á stóð Chicken Street - shit happens en árásin á þá var gerð á götu í Kabúl sem nefnist Chicken Street eða Kjúklingastræti. Sögðu þeir aðspurðir að í því fælist ekki gagnrýni á yfirmann þeirra en fram hefur komið að hann var staddur inni í verslun í götunni þegar árásin var gerð. Þetta væri aðeins svartur húmor og bolina hefðu félagar þeirra á Kabúl-flugvelli fært þeim að gjöf. Sögðu þeir að þeim hefði ekki verið stefnt í hættu í borginni vegna mistaka eða kæruleysis."

Vissulega ansi svartur húmor hjá hinum miklu hetjum. Tvær manneskjur liggja í valnum eftir að þeir ákváðu að hundsa viðvaranir og fara í verslunarferð eins og sönnum Íslendingum sæmir. Auðvitað ber tilræðismaðurinn höfuðábyrgð á dauða stúlknanna, en árásin var gerð á "friðargæsluliðana" og hefði ekki orðið án þeirra nærveru. Einhver önnur árás kannski, en ekki þessi. Stúlkurnar tvær sem létu lífið þarna væru á lífi í dag ef hetjurnar hefðu gert eins og þeim var bæði ráðlagt og skipað, og haldið sig frá kjúklingastræti. Hermönnunum var svo vissulega stefnt í hættu vegna mistaka og kæruleysis enda er það oft talið hættulegt að standa nálægt handsprengju þegar hún springur. Kæruleysið og mistökin þarf ekki að útskýra frekar.

Nú vil ég leggja til, og biðja um að allir sem eru jafn hneykslaðir á framferði "friðargæsluliðanna" okkar og ég er, sendi þeim blóm. Best er að senda þau í utanríkisráðuneytið en heimilisfangið er eftirfarandi:

Utanríkisráðuneytið
c/o íslenska friðargæslan
Rauðarársstíg 25
105 Reyjavík.
E-mail: postur@utn.stjr.is

með blómunum/blóminu ætti að fylgja kort. Kortið ætti að hljóða svo:

"Með þessum blómum vil ég minnast stúlknanna tveggja sem létu lífið vegna hroka og hégómleika íslensku friðargæsluliðanna í Kabúl nýlega. Megi þær hvíla í friði.

(undirritað með nafni)"


Ég vil biðja þá bloggara sem lesa þetta og eru sammála mér um þetta að birta þessa hugmynd í einhverju formi á sinni síðu og láta kortið fylgja. Takk fyrir.



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home